Systurnar sáu um Mosfellinga

Selfoss vann dramatískan sigur á Aftureldingu í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Eftir æsispennandi lokakafla hafði Selfossi eins marks sigur, 26-25.

Gestirnir byrjuðu betur og komust í 1-4 en Selfoss svaraði með góðum kafla og komst yfir 6-5. Eftir þessa góðu rispu slökknaði algjörlega á Selfossliðinu og þær voru varla með í leiknum fram að leikhléi. Afturelding náði fjögurra marka forskoti, 7-11 og staðan var 12-16 í hálfleik. Selfoss fékk aukakast þegar leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik, Thelma Sif Kristjánsdóttir stillti sér upp og kastaði beint í andlitið á leikmanni Aftureldingar sem stóð í veggnum. Augljóst var á látbragði Thelmu að um óviljaverk var að ræða en dómararnir voru ekki á sama máli og gáfu henni rauða spjaldið.

Selfyssingar mættu mun ákveðnari til síðari hálfleiks og loksins var kviknaður neisti í vörn og sókn, sem hafði ekki sést í fyrri hálfleik. Þar voru systurnar Hrafnhildur Hanna og Hulda Dís Þrastardætur í aðalhlutverki. Hulda kom inn í leikstjórnandahlutverkið í seinni hálfleik og sýndi mikla áræðni og Hrafnhildur steig upp og raðaði inn mörkunum með sleggjuskotum af níu metrunum.

Hulda Dís jafnaði 19-19 þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og tveimur mínútum síðar kom Hrafnhildur Selfyssingum yfir, 21-20. Þær voru ekki einu systurnar sem stóðu fyrir sínu því Hildur Øder Einarsdóttir átti fínan leik í hægra horninu og var með 100% nýtingu og Dagmar systir hennar kom inná seint í leiknum, óhrædd við að skjóta og skoraði eitt glæsilegt mark á mikilvægu augnabliki.

Eftir að Selfoss komst yfir höfðu þær frumkvæðið lengst af en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. Afturelding fylgdi Selfyssingum eftir eins og skugginn en markvörður gestanna átti fínan leik og hélt sínu liði inni í leiknum.

Undir lokin fjölgaði mistökunum í sóknarleik Selfyssinga og þegar rúmar fimm mínútur voru eftir jafnaði Afturelding, 25-25. Nú tók við mikil barátta þar sem hvorugu liðinu gekk að skora. Þegar rúm mínúta var eftir af leiknum var Selfoss með boltann, Dagmar skaut að marki en markvörður gestanna varði. Selfyssingar náðu hins vegar frákastinu og Þuríður Guðjónsdóttir negldi boltanum í netið þegar 36 sekúndur voru eftir af leiknum.

Afturelding tók leikhlé fyrir síðustu sókn sína en þeim voru mislagðar hendur á lokasprettinum og þegar fimmtán sekúndur voru eftir stal Hildur Øder boltanum af gestunum og Selfyssingar héldu honum til leiksloka.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Hildur Øder skoraði 5, Tinna Soffía Traustadóttir 4, Þuríður og Hulda Dís 2, Kara Rún Árnadóttir 2/1 og Thelma Sif og Dagmar Øder skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir átti góðan seinni hálfleik í marki Selfoss, varði 12 skot og var með 40% markvörslu. Katrín Ósk Magnúsdóttir átti fína innkomu í markið undir lok fyrri hálfleiks, varði 3 skot og var með 33% markvörslu.

Selfoss er í 5. sæti Olísdeildarinnar með 4 stig að fjórum umferðum loknum.

Fyrri greinFundað um hreyfingar við Húsmúla
Næsta greinRegnboginn heppnaðist vel