Systkinin bæði Norðurlandameistarar

Daníel Jens og Dagný María. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingar náðu frábærum árangri á Norðurlandamótinu í taekwondo sem haldið var í Skanderborg í Danmörku í gær.

Taekwondodeild Umf. Selfoss sendi sex keppendur til leiks, fjóra í bardaga og tvo í formum. Selfyssingarnir kepptu undir merkjum Team Iceland og endaði liðið í 2. sæti í heildarstigakeppninni.

Dagný María Pétursdóttir vann gullverðlaun í senior +73 kg flokki kvenna með miklum yfirburðum. Hún vann úrslitabardagann 8-0 í fyrri lotu og 3-0 í seinni lotu.

Bróðir hennar, Daníel Jens Pétursson, var að keppa á sínu fyrsta móti erlendis síðan 2018 og hann gerði sér lítið fyrir og vann gullverðlaun í veteran +87 kg flokk karla þar sem hann keppti tvo bardaga.

Danni og tröllin sem hann lagði að velli á leið sinni að gullinu. Ljósmynd/Aðsend

Loftur Guðmundsson og Arnar Breki Jónsson voru báðir að taka sín fyrstu skref erlendis. Þeir kepptu báðir í junior -73 kg flokki karla og töpuðu þeir báðir fyrsta bardaga.

Í formum vann Úlfur Darri Sigurðsson vann til tveggja silfurverðlauna annars vegar í einstaklings freestyle formum og svo í hópa formum ásamt Axel Frey Þorkelssyni úr Ármanni og Hilmari Birgi Lárussyni úr Aftureldingu.

Laufey Ragnarsdóttir varð í 5.sæti í einstaklingsflokki junior kvenna af 29 keppendum og Laufey og Úlfur enduðu síðan einnig í 5. sæti í junior para formum.

Þess má svo geta að lokum að Selfyssingar áttu dómara á mótinu. Sigurjón Bergur Eiríksson var að dæma á sínu fyrsta alþjóðlega móti en hann stefnir á A dómara réttindi í bardaga.

Loftur Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend
Arnar Breki Jónsson. Ljósmynd/Aðsend
Laufey Ragnarsdóttir á keppnisgólfinu. Ljósmynd/Aðsend
Sigurjón Bergur Eiríksson dæmdi á sínu fyrsta alþjóðlega móti. Ljósmynd/Aðsend
Úlfur, Axel og Hilmar í 2. sæti í hópaformum. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHreint ekki eins og atvinnuviðtal
Næsta greinSASS leiðir stafræna þróun með Úrgangstorgi