Systkini Íslandsmeistarar í víðavangshlaupi

Svanborg Jónsdóttir varð Íslandsmeistari í flokki 15-17 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Meistaramót Íslands í víðavangshlaupum fór fram í Laugardalnum í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Níu keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt í mótinu og komust sex þeirra á verðlaunapall.

Sveinn Skúli Jónsson varð Íslandsmeistari í flokki 15-17 ára pilta og þar varð Veigar Þór Víðisson í 3. sæti. Þeir keppa báðir fyrir Garp/Heklu.

Systir Sveins Skúla, Svanborg Jónsdóttir, Garpi/Heklu, varð Íslandsmeistari í flokki 15-17 ára stúlkna en Sunnlendingar unnu þrefaldan sigur í þessum flokki. Herdís Björg Jóhannsdóttir, Garpi/Heklu, varð í 2. sæti og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, í 3. sæti.

Þá vann Vikar Reyr Víðisson, Garpi/Heklu, silfurverðlaun í flokki 13-14 ára.

Í víðavangshlaupi er hlaupið á grasi og malarstígum í hæðóttri braut. Flokkar 15-17 ára hlupu 4 km og flokkar 13-14 ára 2 km.

Sveinn Skúli Jónsson fremstur og Veigar Þór Víðisson fylgir honum eftir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vikar Reyr Víðisson á endaspretti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þrefaldur sigur Sunnlendinga í flokki 15-17 ára stúlkna (f.v.) Herdís, Svanborg og Dýrleif. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Garpur/Hekla sendi stóran hóp til leiks sem er hér ásamt Ástþóri Jóni Ragnheiðarsyni, þjálfara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÞessi barátta skiptir okkur miklu máli
Næsta greinVeglegur vinningur á Selfossi