Syrti í álinn í seinni hálfleik

Gerald Robinson skoraði 23 stig og tók 13 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar misstu af mikilvægum stigum í kvöld með því að tapa fyrir Fjölni í 1. deild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Gjánni á Selfossi.

Selfyssingar voru skrefinu á undan allan 1. leikhlutann og í 2. leikhluta jókst forskot þeirra enn frekar. Staðan í hálfleik var 41-33.

Í upphafi seinni hálfleiks fór að syrta í álinn og þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar voru Fjölnismenn komnir yfir, 46-48. Í kjölfarið sóttu gestirnir enn í sig veðrið og í upphafi 4. leikhluta leiddu þeir með 11 stigum, 59-70.

Selfyssingar nálguðust Fjölnismenn á lokakaflanum og síðustu tvær mínúturnar önduðu þeir hressilega niður um hálsmálið á þeim, en náðu ekki að jafna. Fjölnismenn kláruðu leikinn á vítalínunni og sigruðu að lokum 75-81.

Kennedy Aigbogun var stigahæstur Selfyssinga með 27 stig og Gerald Robinson var sömuleiðis sterkur með 23 stig og 13 fráköst.

Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Fjölnir er í næst neðsta sæti með 6 stig.

Fyrri greinFramrás bauð lægst í Skaftártunguveg
Næsta greinÞorsteinn Daníel aftur í Árborg