„Sýndum gæði, breidd og flottan fótbolta“

Selfyssingar unnu góðan sigur á HK á útivelli í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Liðin mættust í Kórnum þar sem Selfoss fór með 0-3 sigur af hólmi.

„Ég er mjög sáttur í dag. Eftir erfiðan 120 mínútna leik í vikunni sýndum við gæði, breidd og flottan fótbolta,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfyssinga, í viðtali við fotbolti.net eftir leik. „Við ætluðum að verjast vel á ákveðum stöðum á vellinum og sækja svo hratt á þá. Það heppnaðist mjög vel.”

Selfyssingar fengu draumabyrjun því strax á fjórðu mínútu var dæmd vítaspyrna sem Pachu skoraði úr. Á 26. mínútu var síðan J.C. Mack á ferðinni með skot af löngu færi sem markvörður HK réð ekki við. Tvö núll fyrir Selfyssingum.

Staðan var 0-2 í leikhléi og Selfyssingar gáfu fá færi á sér í upphafi seinni hálfleiks. Vörðust skipulega og reyndu að sækja hratt. Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum gerði Haukur Ingi Gunnarsson síðan út um leikinn með góðu marki, en Haukur var nýlega kominn inná sem varamaður.

Selfoss er nú í 6. sæti deildarinnar með 6 stig og leikur næst gegn Þór Ak. á heimavelli næstkomandi laugardag.