„Sýndum að okkur langar að vinna“

Selfyssingar gengu svekktir af velli í kvöld eftir að hafa fengið Leikni R í heimsókn í Inkasso-deildinni í knattspyrnu. Lokatölur urðu 0-1.

„Mér fannst við spila ágætlega og Leiknisliðið ekki að skapa sér mikið, það sem þeir sköpuðu sér það gáfum við þeim. Mér fannst við sýna það okkur langar að vinna, að hugafar og gæði fari saman. Við sköpuðum okkur mikið af góðum færum,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Leiknismenn voru sterkari í fyrri hálfleik en fengu þrátt fyrir það ekki mörg færi. Þeir nýttu þó vel það sem var í boði en á 36. mínútu kom Kári Pétursson þeim yfir eftir vel útfærða sókn þar sem Selfyssingar sváfu á verðinum.

Staðan var 0-1 í hálfleik en fjörið í seinni hálfleik var miklu meira, þó að mörkin hafi vantað. Selfyssingar voru sterkari þegar leið á og Leiknismenn geta þakkað Eyjólfi Tómassyni markverði sínum fyrir að ekki fór verr. Hann átti hverja meistaramarkvörsluna á fætur annarri en Selfyssingum var algjörlega fyrirmunað að koma knettinum framhjá honum.

Eftir þrjá leiki eru Selfyssingar með þrjú stig í 8. sæti en þar fyrir neðan eru þrjú lið sem eiga leik til góða. Leiknismenn eru hins vegar áfram í toppsætinu með fullt hús stiga.

Næsti leikur Selfoss er bikarleikur gegn KR á útivelli á miðvikudagskvöld en næsti deildarleikur er svo gegn HK sunnudaginn 29. maí í Kórnum í Kópavogi.

Fyrri greinGáfu gasgrill í Birkimörk
Næsta greinMinni sóun þegar börnin skammta sér sjálf á diskana