Sýndu stuðning við Black Lives Matter á Selfossvelli

Leikmenn og þjálfarar Selfoss krjúpa í mínútu þögn fyrir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mínútu þögn var fyrir leik Selfoss og Þróttar í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í gær til þess að sýna samstöðu með Black Lives Matter.

Þetta var gert að frumkvæði Tiffany McCarty, leikmanns Selfoss, en íþróttamenn um allan heim hafa stutt Black Lives Matter á ýmsan hátt að undanförnu. McCarty segir að þetta hafi verið tilfinningaþrungin stund á Selfossvelli.

„Upphaflega hafði Phoenetia Browne, leikmaður FH, samband við mig og Shameeka Fishley, leikmann Stjörnunnar, um það hvernig við gætum heiðrað Black Lives Matter. Við ræddum þetta og ákváðum að gera eitthvað sem allra fyrst. Ég talaði við þjálfarana og liðsfélagana og við ákváðum að hafa þögn fyrir leikinn,“ sagði McCarty í samtali við sunnlenska.is.

„Ég útskýrði fyrir liðsfélögum mínum hvers vegna þetta væri mér mikilvægt og fékk jákvæð viðbrögð frá þeim. Margir liðsfélaga minna hafa fylgst með hvað hefur verið í gangi í Bandaríkjunum að undanförnu, mótmælunum og stöðunni í stjórnmálunum þannig að þær sýndu skilning. Ég sagði þeim hvað ég ætlaði að gera og að þær réðu því sjálfar hvernig þær myndu tjá sig í þögninni,“ segir McCarty ennfremur. Hún kraup á kné og það sama gerðu allir aðrir leikmenn á vellinum ásamt dómurum leiksins.

„Ég bað og hugleiddi djúpt í þögninni. Satt best að segja þá var þetta súrrealískt og ég er þakklát fyrir að hafa þennan vettvang sem okkur hefur verið gefinn til þess að tjá okkur um þetta alþjóðlega umræðuefni,“ sagði McCarty að lokum.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelfyssingar náðu í sín fyrstu stig
Næsta greinHamarskonur töpuðu í Grindavík