Sýndu sitt rétta andlit

Selfyssingar fagna í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu stórsigur á ÍR í þriðja leik liðanna í umspili um sæti í Olísdeild kvenna í handbolta. Lokatölur urðu 33-21 en staðan í einvíginu er 2-1 fyrir ÍR.

Eftir slæm töp í fyrstu tveimur leikjunum sýndu Selfyssingar sitt rétta andlit í leiknum í kvöld og leiddu frá fyrstu mínútu. Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti en staðan var 9-3 í upphafi leiks og 19-9 í hálfleik. Selfyssingar létu kné fylgja kviði í seinni hálfleik og hleyptu ÍR aldrei inn í leikinn.

Katla María Magnúsdóttir átti frábæran leik fyrir Selfoss, skoraði 10/4 mörk og Tinna Soffía Traustadóttir kom henni næst með 6 mörk. Báðar voru þær með góða skotnýtingu og sömuleiðis sterkar í vörninni. Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 5 mörk, Roberta Stropé 4 og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3 en Elínborg var frábær í vörn Selfoss með 12 löglegar stöðvanir og 3 varin skot. Adela Jóhannsdóttir skoraði 2 mörk og þær Rakel Guðjónsdóttir, Karen Helga Díönudóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoruðu allar 1 mark.

Cornelia Hermansson var mögnuð í marki Selfoss með 12 varin skot og 45% markvörslu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varð 2 skot og var með 25% markvörslu.

Fyrri greinLandsréttur staðfesti gæsluvarðhald mannanna
Næsta greinGrýlupottahlaup 3/2023 – Úrslit