Sweetney kominn til Hamars

Karlalið Hamars í Iceland Express deildinni í körfubolta hefur fengið til liðs við sig bakvörðinn Devin Sweetney sem mun fylla skarðið sem Andre Dabney skilur eftir sig.

Sweetney fékk leikheimild í morgun og mun að öllum líkindum spila með Hamri gegn Keflavík í kvöld.

„Devin er mjög ólíkur Andre, hann er 195 sm á hæð og er mjög fjölhæfur leikmaður. Það á svosem eftir að koma í ljós hvaða kostum hann er búinn en ég á von á því að hann geti leyst margar stöður á vellinum,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is nú í hádeginu.

Hann er 23 ára gamall bakvörður sem spilaði í St.Francis háskólanum í Pennsylvaníu. Eftir útskrift hélt hann til Tulsa 66ers í Oklahoma og spilaði þar á undirbúningstímabilinu fyrr í vetur en fékk ekki samning við liðið sem spilar í NBDL-deildinni.

Andre Dabney hefur yfirgefið Ísland en Hvergerðingar sögðu honum upp um síðustu helgi. Dabney átti mjög gott tímabil í fyrra þar sem hann var stigahæsti leikmaður deildarinnar. Hann hefur hins vegar ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar í vetur. Hamar hefur tapað sex leikjum í röð í deildinni eftir að hafa unnið fimm af fyrstu átta leikjunum.

Fyrri greinFrammistaðan til fyrirmyndar
Næsta greinStuð á Selfossþorrablóti