Sverrir puttabrotinn

Sverrir Andrésson, markvörður Selfossliðsins í handbolta, er puttabrotinn og mun ekki leika með liðinu næsta mánuðinn.

Sverrir meiddist á æfingu fyrir deildarleikinn gegn Þrótti í síðustu viku. Sverrir og Helgi Hlynsson hafa skipt með sér rammanum hjá Selfossliðinu í vetur en nú mun meira mæða á Helga. Skemmtikrafturinn Hermann Guðmundsson frá Stóru-Sandvík mun svo væntanlega vera til taks á bekknum.

Þá er Magnús Már Magnússon meiddur á rist og er óljóst hversu lengi hann verður frá.

Þrír leikir eru eftir í deildinni en í kvöld mæta Selfyssingar Fylki á útivelli. Selfoss hefur unnið báða leikina gegn Fylki nokkuð örugglega í vetur, fyrst 29-14 á Selfossi og svo 25-35 í Árbænum. Í fyrri leiknum var hárgreiðslu- og lífsstílsfrömuðurinn Gústaf Lilliendahl Selfyssingum erfiður ljár í þúfu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Gústaf sá síðan ljósið um áramótin og skipti aftur í raðir Selfoss og er ljóst að reynsla hans og innanbúðarupplýsingar um þá appelsínugulu munu vega þungt í leiknum í kvöld.

Selfoss er í harðri baráttu við Gróttu um sæti í umspili N1-deildarinnar. Selfoss er með 21 stig en Grótta 20 og munu úrslitin mögulega ráðast í innbyrðis leik liðanna á Selfossi næsta föstudag.

Fyrri greinHorfði á sjónvarpið þangað til lögreglan kom
Næsta greinSaumastofan á svið í Árnesi