„Svekktur en horfi á björtu hliðarnar“

Handknattleiksmaðurinn Þórir Ólafsson fékk að vita það síðasta mánudag að Tus-N-Lübbecke ætlaði ekki að framlengja samning hans sem rennur út í vor.

Þórir er fyrirliði liðsins og hefur verið undanfarin sex ár hjá Lübbecke, lengur en nokkur annar í núverandi leikmannahópi liðsins. Eftir að Markus Baur tók við þjálfun liðsins í desember hefur fyrirliðinn eytt mestum tímanum á bekknum.

„Já, þeir tilkynntu þetta á mánudaginn og sögðu að þeir vildu skera niður hópinn og að ég væri ekki í plönum þjálfarans fyrir næstu tímabil. Maður er náttúrulega smá svekktur eftir að hafa staðið sig vel en ég horfi bara á björtu hliðarnar. Nú tekur við ný áskorun einhversstaðar annarsstaðar,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is.

„Annars er ég á fullu að skoða aðra möguleika. Það er allt er opið í þeim efnum en ég á ekki von á því að koma heim strax,“ sagði Þórir sem er 31 árs gamall.

Fyrri greinEyjalögin óma á Suðurlandi
Næsta greinBikargleði í blómabænum