Svekkjandi tap í Garðabæ

Hörkuleikur fór fram Í Garðabænum í gærkvöldi þar sem Selfyssingar heimsóttu Stjörnuna. Leiknum lauk 25-22 fyrir Stjörnuna.

Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik þar sem Stjarnan sat í 3. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Selfoss, sem var í 2. sæti með 11 stig.

Leikurinn fór ekki vel af stað hjá Selfyssingum og var Stjarnan komin í þriggja marka mun strax eftir 13 mínútur. Stjarnan hafði yfirhöndina allt fram að 21. mínútu, en þá tóku Selfyssingar til sinna ráða, þeir skoruðu fjögur mörk í röð og komust einu marki yfir 11-12. Stjarnan skoraði svo tvö mörk fyrir hálfleik og staðan í hálfleik 14-12, Stjörnunni í vil.

Í seinni hálfleik komu Selfyssingar einbeittari til leiks og komust brátt í tveggja marka forystu, 15-17. Leikurinn var ansi jafn fram að 20. mínútu þegar Stjörnumenn skoruðu tvö mörk í röð, þá gerðir Selfyssingar nokkur mistök og ekkert gekk upp hjá þeim síðustu mínúturnar. Þriggja marka sigur heimamanna var staðreynd, 25-22.

Einar Sverrisson skoraði sex mörk, þar af tvö mörk úr víti. Hörður Másson skoraði fimm mörk og Ómar Ingi með fjögur mörk. Aðrir markaskorarar voru Sverrir Pálsson með þrjú, Ómar Vignir með tvö, Andri Hrafn og Hrannar með eitt mark hvor.

Sebastian stóð sig með prýði í markinu og varði 18 skot af 43 sem gerir u.þ.b. 40% markvörslu

Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 11 stig eftir sjö leiki, rétt eins og Grótta. Afturelding er í 1. sæti með 16 stig eftir sigur á Fjölni og Stjarnan er með 12 stig í 2. sæti eftir sigurinn á Selfoss.

Næsti leikur er á móti Þrótti hér heima föstudaginn 22. nóvember.

Fyrri greinRangæingar í Útsvarinu í kvöld
Næsta greinSöngur og sögur í Fljótshlíð og á Selfossi