Svekkjandi tap gegn botnliðinu

Máni Snær Benediktsson lagði grunninn að marki Uppsveita. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir töpuðu 2-3 þegar botnlið KFB kom í heimsókn á Flúðavöll í 4. deild karla í knattspyrnu í dag.

Gestirnir komust yfir strax á 2. mínútu en Uppsveitir sóttu mikið í kjölfarið án þess að finna leiðina í netið. Uppsveitamenn fengu síðan annað mark í andlitið á 36. mínútu en leiðréttu stöðuna aftur á lokamínútu fyrri hálfleiks. Máni Snær Benediktsson skoraði þá eftir frábæran sprett upp völlinn en markið var skráð sem sjálfsmark KFB og staðan var 1-2 í hálfleik.

Uppsveitir byrjuðu vel í seinni hálfleik og Carlos Castellano jafnaði með góðu marki eftir hornspyrnu á 51. mínútu. Áfram héldu Uppsveitamenn að sækja en fengu aftur mark í bakið því gestirnir komust í 2-3 á 64. mínútu. Uppsveitir áttu ágæt færi á lokakaflanum en tókst ekki að skora og gestirnir unnu því sinn fyrsta sigur í sumar, 2-3.

Uppsveitir eru í 7. sæti B-riðilsins með 6 stig og KFB er í 8. sæti með 3 stig.

Fyrri greinVíti í súginn í naumu tapi
Næsta greinMyndavélamálið á ReyCup komið á borð lögreglu