Svekkjandi tap eftir svakalegan endasprett

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar voru hársbreidd frá sínum öðrum sigri í Olísdeild kvenna í handbolta þegar KA/Þór kom í heimsókn í Hleðsluhöllina í kvöld. Lokatölur urðu 28-29.

Leikurinn var jafn í rúmar tíu mínútur í upphafi leiks en þá náðu gestirnir góðum spretti og juku forskot sitt í fjögur mörk, 7-11 þegar sextán mínútur voru liðnar. Staðan var 13-16 í leikhléi.

KA/Þór byrjaði betur í seinni hálfleik og náði mest sex marka forystu, 14-20. Þá tóku Selfyssingar við sér og minnkuðu forskotið jafnt og þétt. Lokakaflinn var sérstaklega góður hjá Selfossi þar sem Katrín Ósk Magnúsdóttir varði nokkra góða bolta í markinu og sóknirnar nýttust vel. 

Selfoss jafnaði 25-25 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það var jafnt á öllum tölum og Selfoss var með pálmann í höndunum þegar þær unnu boltann á lokamínútunni í stöðunni 28-28.

Selfoss tók leikhlé þegar 35 sekúndur voru eftir til þess að stilla upp í lokasóknina en þær komu sofandi úr leikhléinu og töpuðu boltanum á ótrúlegan hátt þremur sekúndum eftir að leikurinn hófst að nýju. Gestirnir skoruðu sigurmarkið í autt Selfossmarkið og næsta sókn Selfoss rann út í sandinn. Leik lokið.

Perla Ruth Albertsdóttir átti mjög góðan leik fyrir Selfoss í kvöld, var sterk í vörn og sókn og markahæst með 8 mörk úr 9 skotum. Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 5 mörk, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4/1, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Rakel Guðjónsdóttir skiluðu sínu vel í hornunum og skoruðu báðar 3 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 2 og þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir, Sarah Boye Sörensen og Carmen Palamariu skoruðu allar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir átti gott kvöld, hún varði 17 skot í leiknum og var með 37% markvörslu.

Selfoss er áfram í botnsæti deildarinnar með 4 stig en KA/Þór er í 5. sæti með 15 stig.

Fyrri greinUnnsteinn íþróttamaður Þjótanda 2018
Næsta greinAf hverju ertu ekki með matreiðsluþátt Einar Bárðarson???