Svekkjandi jafntefli hjá Hamri

Hamar og Augnablik skildu jöfn, 2-2, í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld. Leikið var í Kórnum í Kópavogi.

Það blés ekki byrlega fyrir Hvergerðingum í upphafi leiks því eftir 18. mínútna leik var staðan orðin 2-0 fyrir Augnablik. Örn Rúnar Magnússon minnkaði muninn fyrir Hamar á 35. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.

Heimir Porca, þjálfari Hamars, gerði töluverðar breytingar á liðinu í seinni hálfleik og allir varamennirnir fengu að spreyta sig. Þetta hleypti lífi í Hamarsliðið og á 59. mínútu jafnaði varamaðurinn Ragnar Valberg Sigurjónsson leikinn fyrir Hamar.

Eftir jöfnunarmarkið fengu tveir leikmenn Augnabliks rauð spjöld fyrir ljót brot og Hamarsmenn léku tveimur fleiri síðustu 21 mínútuna. Þeir sóttu stíft að marki Augnabliks og fengu nokkur prýðileg færi en inn vildi boltinn ekki.

Síðasti leikur Hamars í riðlinum er nk. mánudag kl. 18 en þá mætir liðið 1. deildarliði HK í Kórnum.