„Svekkjandi að fá ekkert út úr þessu“

Hergeir Grímsson er farinn í Stjörnuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss töpuðu 31-33 þegar liðið fékk Val í heimsókn í Olísdeild karla í handbolta í dag.

„Við erum að spila hrikalega góðan leik og þess vegna er svekkjandi að fá ekkert út úr þessu. Burtséð frá úrslitum leiksins þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af framhaldinu ef við höldum áfram á þessari braut. Það er mjög margt hrikalega gott í þessu hjá okkur. Við erum með leikmenn í meiðslum en þeir sem eru að koma sig inn eru að standa sig mjög vel og fá reynslu,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar eru nú komnir í jólafrí og eiga næst leik á útivelli gegn HK þann 30. janúar. Grímur ætlar að nota fríið vel.

„Við munum hvíla okkur í nokkra daga og höldum svo áfram á fullu. Við verðum með menn í landsliðsverkefnum um jólin og í janúar og svo fara menn að koma úr meiðslum þannig að breidd­in mun aukast. Einar Sverrisson er byrjaður að æfa með okkur. Ég reikna með að hann fari að koma inn í þetta hægt og rólega og það styttist í Nökkva Dan líka. Þeir koma vonandi báðir inn eftir jól,“ sagði Grímur að lokum.

Selfoss í góðri stöðu lengi vel

Valsmenn byrjuðu betur í leiknum en eftir að Atli Ævar Ingólfsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir litlar sakir á 6. mínútu tvíefldust Selfyssingar og héldu forystunni fram að leikhléi, 18-16. Haukur Þrastarson og Hergeir Grímsson voru frábærir í fyrri hálfleik með 14 af 18 mörkum liðsins.

Selfoss náði mest þriggja marka forskoti í seinni hálfleik en þá skutu Valsmenn sér aftur inn í leikinn og lokakaflinn varð æsispennandi. Liðin skiptust á um að hafa eins marks forskot en Valur gerði færri mistök á lokamínútunum og því fór sem fór.

Hergeir og Haukur markahæstir

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 10/5 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 9 og sendi 7 stoðsendingar, Guðni Ingvarsson skoraði 5, Daníel Karl Gunnarsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Ísak Gústafsson, Magnús Öder Einarsson og Einar Baldvin Baldvinsson skoruðu allir 1 mark.

Einar Baldvin varði 8/1 skot og Sölvi Ólafsson 2.

Selfoss í 5. sæti
Selfoss og Valur voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Valur hefur nú 19 stig í 3. sætinu og Selfoss 17 í 5. sæti.

Fyrri greinLögregla og tollstjóri leituðu í Mykinesi
Næsta greinFerðalangur á fíkniefnum stöðvaður í Ölfusi