Sveinn Skúli Íslandsmeistari í víðavangshlaupi

Sveinn Skúli Jónsson kemur í mark í Víðavangshlaupi Íslands. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveinn Skúli Jónsson, Garpi, varð Íslandsmeistari í víðavangshlaupi í flokki 13-14 ára pilta þegar Víðavangshlaup Íslands fór fram í Laugardalnum í Reykjavík um síðustu helgi.

Sveinn Skúli sigraði í sama flokki í fyrra og varði þar með Íslandsmeistaratitil sinn. Hann hljóp kílómetrana fjóra á 8:22 mín en hlaupið er í hæðóttri braut í Laugardalnum og er undirlagið ýmist gras, trjákurl eða möl. 

Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, Selfossi, varð í 4. sæti í flokki 13-14 ára stúlkna og í sama flokki urðu Álfrún Diljá Kristínardóttir, Selfossi í 5. sæti og Svanborg Jónsdóttir, Garpi, í 6. sæti.

Sæmundur Ingi Jónsson, Garpi varð í 8. sæti í piltaflokki 12 ára og yngri og Benedikt Hrafn Guðmundsson, Selfossi, í 9. sæti í sama flokki.

Íslandsmeistari í karlaflokki, þar sem hlaupnir eru 8 kílómetrar, varð Mýrdælingurinn Guðni Páll Pálsson, en hann keppir fyrir ÍR.

Fyrri greinÞögla barnið er sjálfstætt framhald Eitraða barnsins
Næsta greinLeysi öll mín erfiðustu verkefni og tilfinningar í baði