Sveiflur – en sigur að lokum

Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 6 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á ungmennaliði ÍBV í Grill66 deildinni í handbolta í kvöld, en liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi.

Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins og komst í kjölfarið í 8-1. Þá tóku Eyjakonur við sér og náðu að minnka muninn í eitt mark, en staðan var 13-12 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum byrjuðu heimakonur af krafti, skoruðu fimm fyrstu mörkin og breyttu stöðunni í 18-12. Þar með var björninn ekki unninn því ÍBV-U svaraði af krafti og minnkaði muninn í eitt mark, 21-20, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Selfyssingar voru hins vegar betri á lokakaflanum og tryggðu sér að lokum fjögurra marka sigur.

Selfoss er í 2. sæti deildarinnar með 6 stig en ÍBV-U er í 10 sæti með 2 stig.

Tinna Soffía Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði 5, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Roberta Stropé, Elín Krista Sigurðardóttir og Emelía Kjartansdóttir 3 og þær Inga Sól Björnsdóttir, Kristín Una Hólmarsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Mina Mandic átti góðan leik í marki Selfoss, varði 13 skot og var með 38% markvörslu.

Fyrri greinÉg hef víðtæka reynslu af því að gera mistök
Næsta greinFRESTAÐ: Passía litlu stúlkunnar með eldspýtunnar í Selfosskirkju