Svart og hvítt í fyrri og seinni hálfleik

Áslaug Ýr Bragadóttir átti stórleik fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði 21-27 gegn ungmennaliði HK í Grill 66 deildinni í handbolta á Selfossi í dag.

Selfossliðið lék vel í fyrri hálfleik, vörnin var góð og heimakonur höfðu frumkvæðið þegar leið á fyrri hálfleikinn. Staðan í leikhléi var 12-11.

Slæm byrjun í seinni hálfleik varð Selfyssingum að falli. HK-u skoraði fjögur mörk í röð og Selfoss náði aldrei að brúa það bil og undir lokin jókst munurinn enn frekar.

Selfoss er áfram á botni deildarinnar með 2 stig en HK-u er í 6. sæti með 8 stig.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6/3 mörk, Elín Krista Sigurðardóttir skoraði 5, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Ivana Raickovic og Katla Björg Ómarsdóttir 2 og þær Agnes Sigurðardóttir og Sólveig Ása Brynjarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir átti stórleik í marki Selfoss. Hún varði 17/1 skot og var með 42% markvörslu.

Fyrri greinHeiða Guðný vill leiða VG í Suðurkjördæmi
Næsta greinVeigar Þór Íslandsmeistari í fimmtarþraut