Svandís vann töltið þriðja árið í röð

Svandís Atkien Sævarsdóttir, Hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi, stendur efst í Meistaradeild Líflands og æskunnar að loknum fjórum keppnisgreinum en hún sigraði um síðustu helgi í sannkallaðri töltveislu í Lýsishöllinni í Víðidalnum.

Eftir forkeppnina stóð Svandís efst á Fjöður frá Hrísakoti með 7,22 í einkunn og önnur var Elva Rún Jónsdóttir á Straumi frá Hofsstöðum Garðabæ með 6,80.

Úrslitin voru æsispennandi. Svandís var ekkert á því að gefa efsta sætið eftir en Elva Rún kom þó þétt upp að hlið hennar og hlutu þær sömu heildareinkunn að lokum, 7,06. Það þurfti því sætaröðun dómara til að skera úr um hvor þeirra hlyti fyrsta sætið. Eftir að hún lá fyrir varð ljóst að Svandís hlaut fyrsta sætið og hefur hún því unnið þessa grein í deildinni þrjú ár í röð og er efst í stigakeppni deildarinnar þegar fjórum greinum af sex er lokið. Þess má geta að Svandís hlaut æskulýðsverðlaun Sleipnis á uppskeruhátíð félagsins um helgina.

Elísabet Líf Sigvaldadóttir úr Hestamannafélaginu Geysi komst einnig í A-úrslitin á Fenri frá Kvistum og varð í 5. sæti með 6,56 stig.

Lið Hofsstaða/Ellerts Skúlasonar varð stigahæst um helgina með 79 stig, enda þrír liðsmenn þess í úrslitum. Í liðinu eru auk þeira Svandísar og Elvu Rúnar þær Helena Rán Gunnarsdóttir og Kolbrún Sif Sindradóttir. Liðið leiðir einnig stigakeppnina eins og staðan er í dag.

Fyrri greinGuðmundur lætur gamminn geisa á bókasafninu
Næsta greinLárus sæmdur gullmerki ÍSÍ – þrjú fengu silfurmerki