Súrt tap í Skagafirðinum

Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs, fer yfir málin með liði sínu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór heimsótti Tindastól í toppbaráttu 1. deildar kvenna í körfubolta á Sauðárkrók í kvöld. Stólarnir kreistu fram 67-66 sigur á lokasekúndunum og úrslitin því heldur súr fyrir Hamar/Þór.

Hamar/Þór skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum en Stólastúlkur voru fljótar að jafna og komast yfir í kjölfarið. Jóhanna Ágústsdóttir lokaði 1. leikhlutanum með þristi og Hamar/Þór var 18-19 yfir eftir tíu mínútna leik. Á upphafsmínútum 2. leikhluta skiptust liðin á um að hafa forystuna en Hamar/Þór náði svo frumkvæðinu og leiddi 33-41 í hálfleik.

Þær sunnlensku héldu forystunni allan seinni hálfleikinn, þar til lokamínútan rann upp. Þegar 36 sekúndur voru eftir komst Tindastóll yfir, 66-65, og lokasekúndurnar voru æsispennandi. Hamar/Þór nýtti ekki sínar sóknir og þegar tvær sekúndur voru eftir fékk Emma Hrönn Hákonardóttir færi á að jafna af vítalínunni en fyrra skotið geigaði og lokatölur leiksins urðu 67-66.

Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 18 stig og 13 fráköst, Emma Hrönn skoraði 17 stig og tók 6 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir skoraði 15 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir 7 stig og 7 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir 5 stig og þær Kristrún Ríkey Ólafsdóttir og Helga María Janusdóttir skoruðu báðar 2 stig en Kristrún tók 11 fráköst að auki.

Tindastóll er í 2. sæti deildarinnar með 8 stig en Hamar í 3. sæti með 6 stig.

Fyrri grein„Mikilvægur þáttur í að halda uppi menningu“
Næsta greinÖruggt hjá Hamri gegn botnliðinu