Sunnlensku liðin sigruðu

Ahmad Gilbert var maður leiksins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn og Selfoss unnu bæði góða sigra í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Báðir leikirnir unnust með 5 stiga mun.

Hrunamenn tóku á móti Sindra sem hefur verið í mikilli siglingu í deildinni og situr í 2. sæti. Leikurinn var í járnum allan tímann, munurinn aldrei meiri en fimm stig og sautján sinnum skiptust liðin á um forystuna. Staðan í hálfleik var 45-48 og seinni hálfleikurinn var æsispennandi.

Þegar nálgaðist lokin höfðu Sindramenn kreist fram 10 stiga forskot en Hrunamenn gerðu 15-5 áhlaup á síðustu tveimur mínútunum og jöfnuðu 98-98. Leikurinn fór því í framlengingu og þar voru Hrunamenn klárir. Þeir leiddu alla framlenginguna og sigruðu að lokum 110-105.

Ahmad Gilbert var í miklum ham í kvöld, skoraði 44 stig, tók 14 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Samuel Burt var sömuleiðis með gott framlag, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst.

Barátta í Borgarnesi
Í Borgarnesi mættust Skallagrímur og Selfoss. Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta náðu Selfyssingar forskoti og staðan var 45-56 í hálfleik. Skallagrímur saxaði hratt á forskotið í 3. leikhluta og í þeim fjórða mátti vart á milli sjá. Selfyssingar voru þó skrefinu á undan og á lokamínútunni raðaði Kennedy Aigbogun niður fjórum vítaskotum til þess að tryggja 82-87 sigur. Srdan Stojanovic var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss og Hrunamenn eru í 4.-5. sæti með 8 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 44/14 fráköst/9 stoðsendingar/3 varin skot, Samuel Burt 31/12 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 10, Yngvi Freyr Óskarsson 10/6 fráköst, Friðrik Heiðar Vignisson 6/5 fráköst, Eyþór Orri Árnason 5/8 fráköst/5 stoðsendingar, Orri Ellertsson 2, Hringur Karlsson 2.

Tölfræði Selfoss: Srdan Stojanovic 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Gerald Robinson 14/11 fráköst, Kennedy Clement Aigbogun 14/5 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 12/4 fráköst/5 stolnir, Arnaldur Grímsson 9/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 6/7 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson 5, Dusan Raskovic 3.

Fyrri greinMaría og Jón Ingi keppa í Danmörku
Næsta greinÓskar Snorri hreppti Hljóðkútinn