Sunnlensku liðin sigruðu öll – Hamar í úrslitakeppnina

Bjarki Rúnar Jónínuson var bestur og markahæstur hjá Hamri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR, Hamar og Uppsveitir unnu öll sína leiki í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

KFR heimsótti Ísbjörninn í Kópavoginn. Ísbjörninn hefur verið illviðráðanlegur í sumar og vann fyrri leik liðanna örugglega. Rangæingar hefndu hins vegar fyrir tapið í kvöld og unnu 1-2 sigur. Trausti Rafn Björnsson og Hjörvar Sigurðsson skoruðu fyrir KFR í seinni hálfleik og Rangæingar jöfnuðu þar með Ísbjörninn með 12 stig á töflunni. KFR er í 6. sæti A-riðilsins.

Á Álftanesi mættust KFB og Hamar og þar lentu Hvergerðingar í basli með botnliðið í riðlinum. KFB komst í 1-0 á 25. mínútu en Ísak Leó Guðmundsson jafnaði á 42. mínútu og staðan var 1-1 í leikhléi. Liðunum tókst ekki að skora í seinni hálfleik fyrr en fimm mínútum fyrir leikslok að Hamar fékk vítaspyrnu og úr henni skoraði Bjarki Rúnar Jónínuson sigurmarkið, 1-2.

Uppsveitamenn mættu svellkaldir á Þróttarvöllinn þar sem þeir léku listir sínar gegn Skautafélagi Reykjavíkur. Víkingur Freyr Erlingsson kom Uppsveitum yfir strax á 5. mínútu leiksins og staðan var 0-1 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var markalaus, allt þar til á 84. mínútu að Pétur Geir Ómarsson kom Uppsveitum í 0-2 og þær urðu lokatölur leiksins.

Með sigrinum tryggði Hamar sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar en Hvergerðingar hafa 29 stig í 2. sæti B-riðilsins. Uppsveitir eru í 7. sæti með 9 stig.

Fyrri greinBjörgvin Karl í 4. sæti 
Næsta greinVæri til í að vera föðuramma mín