Sunnlensku liðin sigruðu öll

Ahmad Gilbert var sterkur í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlensku liðin í 1. deild karla í körfubolta sigruðu öll í leikjum sínum í kvöld. Hamar og Selfoss áttu heimaleiki en Hrunamenn ferðuðust til höfuðborgarinnar.

Hamar tók á móti Sindra og eftir sveiflukenndan fyrri hálfleik voru Hvergerðingar sterkari í seinni hálfleik og sigruðu að lokum 96-86. Staðan í hálfleik var 49-50. Jose Medina var stigahæstur Hvergerðinga með 37 stig en maður leiksins var Ragnar Nathanaelsson sem skoraði 22 stig og tók 18 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 19 stig og Daníel Sigmar Kristjánsson 10.

Þá unnu Hrunamenn virkilega góðan sigur á Fjölni á útivelli, 106-111. Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og staðan í leikhléi 57-58. Hrunamenn voru lengst af skrefinu á undan í seinni hálfleik og tryggðu sér að lokum dýrmæt stig. Ahmad Gilbert var með svakalegar tölur fyrir Hrunamenn, 41 stig og 17 fráköst. Samuel Burt skoraði 27 stig og bræðurnir Óðinn Freyr og Eyþór Orri Árnasynir skiluðu báðir 10 stigum.

Þá sigraði Selfoss ÍA mjög örugglega í Gjánni á Selfossi, 116-87. Staðan í hálfleik var 59-51.

Staðan í deildinni er þannig að Selfyssingar eru í 3. sæti, Hamar í 5. sæti og Hrunamenn í 6. sæti en öll liðin eru með 4 stig.

Fyrri greinÞórsarar töpuðu þegar Styrmir sneri heim
Næsta greinÍsland með góð tök á Eistunum