Sunnlensku liðin gerðu bæði jafntefli

Brynjar Bergsson skoraði og fiskaði víti í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Heil umferð fór fram í 4. deild karla í knattspyrnu í dag. Árborg tók á móti Álftanesi á Selfossi en Hamar heimsótti KÁ í Hafnarfjörðinn.

Árborgarar sóttu stíft að marki Álftaness fyrstu 25 mínútur leiksins og Brynjar Bergsson kom þeim yfir á 12. mínútu. Á 26. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu og Ara Rafni Jóhannssyni var vísað af velli með rautt spjald. Álftanes jafnaði úr spyrnunni og róðurinn þyngdist hjá Árborg í kjölfarið, manni færri.

Staðan var 1-1 í hálfleik en snemma í seinni hálfleik jafnaði dómarinn í liðunum þegar leikmaður Álftaness sá rautt fyrir að brjóta á Kristni Ásgeiri Þorbergssyni í öftustu víglínu. Leikurinn opnaðist aftur í kjölfarið en það var ekki fyrr en í uppbótartímanum að mörkunum fjölgaði. Kristinn Ásgeir skoraði úr vítaspyrnu á 96. mínútu eftir að markvörður Álftaness braut á Brynjari í teignum. Árborgarar fögnuðu vel en náðu ekki að halda út og á 8. mínútu uppbótartímans jöfnuðu gestirnir og úrslitin urðu 2-2.

Hamar lenti 3-0 undir og jafnaði
Hamarsmenn áttu magnaða endurkomu í miklum markaleik gegn toppliði KÁ á Ásvöllum. KÁ komst í 3-0 í fyrri hálfleik en Brynjólfur Þór Eyþórsson minnkaði muninn á 35. mínútu og staðan var 3-1 í hálfleik.

Mörkunum rigndi á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks. Guido Rancez minnkaði muninn í 3-2 á 47. mínútu en strax í næstu sókn komst KÁ í 4-2. Á 54. mínútu skoraði Rodrigo Depetris þriðja mark Hamars og staðan var 4-3 allt þar til þrjár mínútur voru eftir af leiknum að Daníel Ben Daníelsson skoraði fyrir Hvergerðinga og tryggði þeim stig í 4-4 jafntefli.

Eftir ellefu umferðir er Árborg í 3. sæti deildarinnar með 19 stig en Hamar er í botnsætinu með 2 stig.

Fyrri greinFyrirliðinn fótbrotinn
Næsta greinReynslan skilaði stórsigri Uppsveita