Sunnlensku liðin töpuðu öll

Ægir, Hamar, KFR og Stokkseyri töpuðu öll sínum leikjum á Íslandsmótinu í knattspyrnu í kvöld.

Ægir tók á móti Njarðvík í 2. deildinni og tapaði 0-1 í bragðdaufum leik. Eina mark leiksins kom með laglegri afgreiðslu Njarðvíkinga fyrir utan teig um miðjan síðari hálfleik.

Hamar heimsótti Berserki í 3. deildinni og tapaði 3-0. Heimamenn leiddu 2-0 í hálfleik og bættu þriðja markinu við snemma í síðari hálfleik. Á 79. mínútu fékk Ingólfur Þórarinsson rautt spjald þannig að Hamarsmenn luku leik tíu gegn ellefu.

KFR heimsótti topplið Leiknis á Fáskrúðsfjörð í 3. deildinni. Úrslitin réðust á dramatískum lokamínútum. Leiknir leiddi 1-0 í hálfleik og staðan var orðin 2-0 á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. KFR minnkaði muninn á 52. mínútu með sjálfsmarki og Guðmundur Garðar Sigfússon jafnaði metin á lokamínútu leiksins. Heimamenn náðu hins vegar að knýja fram sigur strax í næstu sókn og lokatölur urðu 3-2.

Að lokum heimsótti Stokkseyri Vængi Júpíters í 4. deildinni og þar unnu heimamenn 2-0 sigur en staðan var 1-0 í hálfleik.

Fyrri greinKári Steinn keppir við Árborgarliðið
Næsta greinLokadagur menningarveislunnar