Sunnlensku liðin töpuðu öll

KFR, Ægir og Stokkseyri töpuðu öll leikjum sínum í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag.

KFR mætti 2. deildarliði KV á Selfossvelli. KV komst yfir strax á 2. mínútu en Ívar Örn Kristjánsson jafnaði fyrir KFR fjórum mínútum síðar. Ævar Már Viktorsson kom Rangæingum svo í 2-1 á 16. mínútu. Þá settu Vesturbæingar í gírinn, bættu við fimm mörkum á tuttugu mínútna kafla og staðan var 2-6 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var tíðindaminni en KV bætti við tveimur mörkum og lokatölur urðu 2-8. KFR lauk keppni á botni riðils-2 í B-deildinni með 3 stig.

Í sama riðli mættust Ægir og Sindri á Selfossvelli. Hornfirðingar reyndust þar sterkari, sigruðu 0-3 og tryggðu sér toppsætið í riðlinum og sæti í úrslitakeppninni. Ægismenn eru hins vegar í 5. sæti riðilsins með 6 stig.

Stokkseyri fékk stóran skell þegar liðið mætti KH á gervigrasinu við Kórinn í dag. Staðan í hálfleik var 5-0, KH í vil, en lokatölur urðu 12-0. Stokkseyringar luku leik með níu leikmenn inni á vellinum en liðið hrundi niður á lokakaflanum vegna meiðsla.

Stokkseyri lauk keppni í botnsæti riðilsins með 4 stig.

Fyrri greinFimleikahetjunum fagnað
Næsta greinOpnun tilboða í Selfosslínu og Hellulínu