Sunnlensku liðin náðu ekki 5. sætinu þrátt fyrir sigra

Þrátt fyrir að bæði lið hafi unnið sigur í kvöld komust hvorki Hamar eða FSu í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta.

Breiðablik lagði Þór Ak. að velli og þar með áttu sunnlensku liðin enga möguleika á að komast upp fyrir Blika á töflunni. Hamar heimsótti Augnablik í kvöld og FSu fékk Vængi Júpíters í heimsókn.

Augnablik leiddi eftir 1. leikhluta, 28-20, en Hamar komst yfir fyrir hálfleik, 44-45. Hvergerðingar náðu svo góðu forskoti í 3. leikhluta sem þeir héldu til loka. Lokatölur urðu 81-96.

Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur Hvergerðinga með 21 stig, Stefán Halldórsson skoraði 17, Bragi Bjarnason 15, Sigurður Hafþórsson 9, Bjarni Rúnar Lárusson 8, Ingvi Guðmundsson og Mikael Kristjánsson 6, Emil Þorvaldsson og Snorri Þorvaldsson 5 og þeir Aron Freyr Eyjólfsson og Bjartmar Halldórsson skoruðu báðir 2 stig. Danero Thomas lék ekki með Hvergerðingum í kvöld vegna hnémeiðsla.

FSu hafði góð tök á Vængjum Júpíters frá upphafi, komst í 18-7 í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum 30-13. Staðan var 52-40 í hálfleik en FSu hóf síðari hálfleikinn á laufléttu 35-6 áhlaupi og og voru þá komnir með 41 stigs forskot, 87-46. Vængirnir náðu ekki flugi eftir það og lokatölur urðu 107-64.

Collin Pryor skoraði 20 stig og tók 14 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 16 stig, Erlendur Stefánsson 13, Svavar Stefánsson 11, Geir Helgason og Birkir Víðisson 10, Ari Gylfason 9, Arnþór Tryggvason og Maciej Klimaszewski skoruðu báðir 6 stig, Gísli Gautason 4 og Þórarinn Friðriksson 2.

Deildarkeppninni er nú lokið og luku Hvergerðingar leik í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en FSu varð í 7. sæti, einnig með 18 stig.
Fyrri greinLögreglustjórinn á Hvolsvelli stýrir umferðarnefnd
Næsta greinFlóahreppur kaupir land af Kirkjumálasjóði