Sunnlensku liðin töpuðu

Ægir, Hamar og KFR töpuðu öll leikjum sínum í 2. og 3. deild karla í knattspyrnu í dag.

Ægir sótti Fjarðabyggð heim á Norðfjarðarvöll í 2. deildinni og þar tryggðu heimamenn sér 2-0 sigur með mörkum undir lok leiksins. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Á Grýluvelli tók Hamar á móti ÍH sem spáð var botnsæti 3. deildarinnar. Hamarsmenn voru sterkari í fyrri hálfleik en gestirnir skoruðu, gegn gangi leiksins, úr vítaspyrnu á 38. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik en ÍH bætti öðru marki við eftir fimmtán mínútna leik í síðari hálfleik og þar við sat. 0-2.

KFR heimsótti Berserki á Víkingsvöll í 3. deildinni og þar voru heimamenn sterkari aðilinn. Helgi Ármannsson kom KFR reyndar yfir á 33. mínútu en mínútu síðar fékk Guðbergur Baldursson sitt annað gula spjald og þar með rautt og Rangæingar því einum færri það sem eftir lifði leiks.

Berserkir gengu á lagið, skoruðu tvívegis fyrir leikhlé og leiddu 2-1 í hálfleik. Berserkir bættu tveimur mörkum við snemma í síðari hálfleik en Guðmundur Garðar Sigfússon minnkaði muninn í 4-2 fyrir KFR á 72. mínútu. Berserkir innsigluðu síðan 5-2 sigur með lokamarki leiksins á 83. mínútu.

Fyrri greinTvöfaldur sunnlenskur sigur
Næsta greinStyrmir stökk hæst allra