Sunnlensku liðin sigruðu öll

Ægir vann KV í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld og í C-deildinni unnu bæði Stokkseyri og Árborg sigra.

Ægir mætti KV á gervigrasi KR og þar kom Ingvi Rafn Óskarsson Þorlákshafnarliðinu yfir strax á 17. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik en á 53. mínútu jöfnuðu KV-menn. Fjórum mínútum síðar var staðan orðin 1-2 eftir að Eiríkur Ari Eiríksson kom Ægi aftur yfir og Trausti Guðmundsson innsiglaði svo 1-3 sigur Ægis á 74. mínútu.

Eftir tvær umferðir er Ægir í 2. sæti riðils-2 í B-deildinni með 4 stig, eins og ÍH sem er í toppsætinu.

Stokkseyri heimsótti Kríu á Vivaldivöllinn á Seltjarnarnesi. Kría komst yfir snemma leiks en Örvar Hugason jafnaði metin á 38. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Það var hart barist í síðari hálfleik en þremur mínútum fyrir leikslok náðu Stokkseyringar að knýja fram sigur með marki frá Þórhalli Aroni Mássyni.

Á Hertz-vellinum í Breiðholti mættust Léttir og Árborg. Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 42. mínútu og þar var á ferðinni Snorri Sigurðarson, fyrirliði Árborgar. Fleiri urðu mörkin ekki og Árborg fagnaði sigri.

Staðan í riðli-4 í C-deildinni er þannig að Árborg og Stokkseyri eru efst og jöfn með 6 stig, en Árborgarar hafa betra markahlutfall.