Sunnlenskir körfukrakkar gerðu það gott í Svíþjóð

Um páskana fór fram körfuboltamótið Scania Cup í Södertälje í Svíþjóð. Mótið er eins konar óopinbert Norðurlandamót félagsliða og þangað hefur sterkustu liðum Íslands verið boðið í gegnum tíðina.

Að þessu sinni var engin undantekning á því og fjölmörg íslensk lið sem tóku þátt með góðum árangri. Þar á meðal Þór Þorlákshöfn og Hrunamenn sem hafa verið í samstarfi með nokkra yngri flokka á undanförnum árum. Að þessu sinni þáðu félögin boð fyrir þrjá sameiginlega flokka sem hafa verið að gera það gott á Íslandsmótum. 7. flokkur karla og kvenna hélt utan ásamt strákum í 9. flokki.

Öll liðin stóðu sig prýðilega. Yngri krakkarnir töpuðu leikjunum í riðlakeppninni, en allt voru það jafnir leikir. Þeir enduðu því á að spila um sæti í neðri hlutanum. Strákarnir enduðu í 14. sæti og stelpurnar í 11. sæti. Bæði lið enduðu á góðum sigrum gegn andstæðingum sínum og áttu skínandi góðan leik.

Strákarnir í 9. flokki spiluðu heilt yfir vel á mótinu. Þeir mættu heimamönnum í SBBK í 8-liða úrslitum en hittu því miður á slakan leik. Þeir sýndu hins vegar frábæra spilamennsku í leikjum um sæti 5-8 og tryggðu sér 5. sætið með sigri á mjög sterku liði sem hafði unnið sigurvegara mótsins í riðlakeppninni.

Ferðin heppnaðist vel í alla staði og komu ferðalangarnir 54 lukkulegir heim reynslunni ríkari. Leikmennirnir búa nú að reynslunni og vita hvernig það er að leika gegn þeim bestu á Norðurlöndunum og ætti það að reynast gott veganesti fyrir baráttuna sem framundan er í Íslandsmótum.

Að móti loknu voru stjörnulið mótsins valin og þar var Emma Hrönn Hákonardóttir valin í úrvalslið stúlkna sem fæddar eru 2005 og Ísak Júlíus Perdue valinn í úrvalslið stráka sem fæddir eru 2003. Sunnlensku leikmennirnir voru ofarlega á listum yfir stigahæstu leikmenn, sérstaklega ´03 strákarnir sem áttu 3 á topp 5 listanum:

2005 stelpur
2. sæti: Emma Hrönn Hákonardóttir 83 stig
25.- 28. sæti: Hildur Björk Gunnsteinsdsóttir 29 stig
25.- 28. Sæti: Valdís Una Guðmannsdóttir 29 stig

2005 strákar
4.- 5. sæti: Tómas Valur Þrastarson 89 stig
20-21. sæti: Óðinn Freyr Árnason 56 stig
20-21. sæti: Einar Dan Róbertsson 56 stig

2003 strákar
1. sæti: Ísak Júlíus Perdue 115 stig
2. sæti: Eyþór Orri Árnason 114 stig
5. sæti: Aron Ernir Ragnarsson 81 stig

Fyrri greinGrýlupottahlaup 1/2018 – Úrslit
Næsta greinBörn og aldraðir í Flóahreppi fá frítt í sund í Árborg