Sunnlenskir keppendur stóðu sig frábærlega

Íslandsmótið í stökkfimi, sem er ný keppni hjá Fimleikasambandi Íslands, fór fram um síðustu helgi í Dalhúsum í Grafarvogi. Fjölmargir keppendur frá Selfossi, Hamri, Þór og Stokkseyri tóku þátt og stóðu sig allir með stakri prýði.

Þetta er í fyrsta skipti sem mótið er haldið í þessari mynd. Keppt var í dýnu og trampólínstökkum en á fyrri mótum hefur einnig verið keppt í dansi. Alls tóku þátt um 340 keppendur frá fjórtán félögum. Hamar sendi sextán keppendur til leiks, Selfoss tíu, Þórsarar níu og Stokkseyri átta. Keppninni var skipt í stúlkna og drengjaflokka þar sem keppendum var síðan skipt upp í A og B hópa eftir getustigi.

Sunnlendingar eignuðust einn Íslandsmeistara en í flokki 13-16 ára pilta sigraði Eysteinn Máni Oddsson, Umf. Selfoss, í trampólínstökki og í samanlögðum árangri með 27,70 stig sem er mjög flott einkunn. Félagi hans úr Umf. Selfoss; Konráð Oddgeir Jóhannsson, sigraði í dýnustökki í sama flokki en keppti ekki á trampólíni sökum meiðsla.

Í flokki kk 9-12 ára B varð Eyjólfur Örn Höskuldsson, Hamri, í 3. sæti á trampólíni.

Í flokki kvk 9-10 ára B náði Erika Ósk Júlíusdóttir, Umf. Stokkseyrar, frábærum árangri þar sem hún lenti í 4. sæti af 53 keppendum. Sigrún Tinna Björnsdóttir og Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, Hamri, lentu saman í 8. sæti í samanlögðu í flokknum en þegar keppendur voru yfir þrjátíu í flokki voru gefin verðlaun fyrir tíu efstu sætin í samanlögðum stigum.

Í flokki kvk 11-12 ára A sigraði Hekla Björt Birkisdóttir, Umf. Selfoss, á dýnu, varð fjórða á trampólíni og í 2. sæti samanlagt í flokknum. Birta Marín Davíðsdóttir, Hamri, varð í 3. sæti á trampólíni í þessum flokki og í 4. sæti samanlagt. Í B-hópnum hreppti Vanda Jónasardóttir, Umf. Stokkseyrar, silfur í dýnustökki og 3. sæti í samanlögðu af 47 keppendum.
Í flokki kk 11-12 ára A náði Tryggvi Þórisson, Umf. Selfoss, bestum árangri Sunnlendinga og hafnaði í 4. sæti á dýnu, trampólíni og í samanlögðum stigum. Davíð Eldjárn Guðmundsson, Umf. Selfoss, hafnaði í 5. sæti á dýnu, trampólíni og í samanlögðum stigum.

Í flokki kvk 14 ára B lenti Dröfn Einarsdóttir, Hamri, í 2. sæti bæði á trampólíni og dýnu og sigraði í samanlögðu.

Í flokki kvk 15-16 ára A nældi Sunna Ýr Sturludóttir, Umf. Þór, í brons á trampólíni og í sama flokki varð Kolbrún Olga Reynisdóttir, Umf. Þór, í 4. sæti á dýnu og í samanlögðu. Eydís Arna Birgisdóttir, Umf. Selfoss, varð í 10. sæti samanlagt í þessum flokki. Í B-hópnum sigraði Rebekka Sif Gunnþórsdóttir, Umf. Þór, bæði á trampólíni og dýnu og í samanlögðu.

Keppendur frá Þór Þorlákshöfn stóðu sig með prýði á mótinu.

Dröfn Einarsdóttir, Hamri, lenti í 2. sæti bæði á trampólíni og dýnu í flokki 14 ára B og sigraði í samanlögðu.

Hamar fjölmennti á mótið og hér er hluti Hvergerðinganna.

Vanda Jónasardóttir, Umf. Stokkseyri, lenti í 3. sæti í fjölþraut í flokki 12 ára B.

Erika Ósk Júlíusdóttir, Umf. Stokkseyri (t.h.) og Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, Hamri. Erika lenti í 4. sæti samanlagt í flokki 10 ára B og Kolbrún Rósa í 8. sæti í sama flokki.
Fyrri greinFóðurráðgjöf og fróðleikur á opnu húsi
Næsta greinMögnuð dagskrá í Bókakaffinu