Sunnlenska deildin fær nýtt nafn

Recreo og Sunnlenska deildin hafa undirritað samstarfssamning fyrir komandi keppnistímabil. Þá mun Pizza Islandia styrkja bikarkeppni deildarinnar.

Recreo, umboðsaðili Legea íþróttafatnaðar á Íslandi, mun styðja við áframhaldandi uppgang Sunnlensku deildarinnar og mun deildin hér eftir heita Sunnlenska Legea deildin.

Ítalski íþróttavöruframleiðandinn Legea er eitt stærsta íþróttamerkið í Evrópu og er með starfsemi um allan heim og á flestum sviðum íþróttalífs. Knattspyrnulið eins og Udinese, Palermo og Lillestrøm leika öll í Legea fatnaði sem og landslið Bosníu og Hersegóvínu, og Svartfjallalands.

Sunnlenska deildin er utandeild knattspyrnuliða á Suðurlandi sem er að hefja sitt tólfta keppnistímabil nú í sumar. Deildin var stofnuð árið 2000 og hefur verið starfrækt óslitið síðan. Liðin í deildinni hafa komið allt frá Hveragerði, Vestmannaeyjum, uppsveitum Árnessýslu og austur til Víkur í Mýrdal. Nú í sumar eru skráð tíu lið til keppni. Léttleikinn er í hávegum hafður meðal liðsmanna deildarinnar sem keppa þó af fullri alvöru um titilinn ár hvert. Deildin hefur skapað sér sess sem órjúfandi þáttur í menningu Suðurlands enda hafa landsliðsmenn og heilu félagsliðin sprottið upp úr hinu skemmtilega sparki Sunnlensku deildarinnar gegnum árin.

Þá hafa Pizza Islandia og Sunnlenska Legea deildin einnig gert samning fyrir komandi keppnistímabil. Pizza Islandia mun styrkja bikarkeppnina og mun bikarinn bera nafnið Pizza Islandia bikarinn.

Pizza Islandia er veitingastaður sem er með starfsemi sína í Grindavík og á Selfossi.

Fyrri greinLárus líka með kvennaliðið
Næsta greinÁsgeir Magnússon: Dyrhólaey