Sunnlendingar unnu til fjölda verðlauna á Unglingalandsmótinu

Frá setningarathöfn Unglingalandsmótsins. Ljósmynd/UMFÍ

Alls mættu 110 keppendur af sambandssvæði HSK til leiks á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Allir keppendur HSK fengu að gjöf HSK treyju merkta sambandinu og Arionbanka, en bankinn hefur um árabil styrkt HSK um kaup á treyjum. Á keppendatjaldsvæðinu tjölduðu HSK keppendur og fjölskyldur þeirra saman á svæði merktu sambandinu og þar var sett upp samkomutjald HSK, þar sem boðið var upp á kakó og kex á kvöldin.

Það var Unglingalandsmótsnefnd HSK sem sá um undirbúning og framkvæmdina vegna þessa. Í nefndinni voru Helga Kolbeinsdóttir formaður, Heiða Pálrún Leifsdóttir, Anný Ingimarsdóttir og Marinó Fannar Garðarsson.

Keppendur HSK stóðu sig vel á mótinu og unnu til verðlauna í fjölda greina og hér fyrir neðan verður greint frá þeim sem unnu Unglingalandsmótsmeistaratitla.

Unglingalandsmótsmeistarar einstakra greina:

Biathlon
Marteinn Maríus Marinósson varð Unglingalandsmótsmeistari í biathlon í flokki 15-16 ára drengja.

Marteinn Maríus Marinósson náði bestum tíma allra í hlaupaskotfimi. Ljósmynd/Berglind Rós Magnúsdóttir

Frisbígolf
Keppendur HSK unnu þrjá flokka af fjórum í frisbígolfi. Anna Metta Óskarsdóttir vann í flokki 11-14 ára, Aron Leó Guðmundsson vann í flokki drengja 11-14 ára og Vésteinn Loftsson vann drengjaflokk 15-18 ára.

Frjálsar
Keppendur HSK unnu samtals 26 unglingalandsmótsmeistaratitla í frjálsíþróttum auk þess sem fimm keppendur frá HSK voru í blönduðum sigursveitum í 4×100 m boðhlaupi með keppendum úr öðrum samböndum.

12 ára
Ásta Kristín Ólafsdóttir vann spjótkastið í 12 ára flokki.

13 ára
Anna Metta Óskarsdóttir sigraði í hástökki og Adda Sóley Sæland vann kringlukast og spjótkast. Þær voru síðan báðar í sveitinni Skvísurnar sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi.

14 ára – Bryndís bætti eigið HSK met
Bryndís Embla Einarsdóttir varð unglingalandsmótsmeistari í spjótkasti, kastaði 45,36 metra og bætti eigið HSK met um 18 sentimetra. Bryndís vann einnig 80 m grindahlaup og kúluvarp. Helga Fjóla Erlendsdóttir sigraði í hástökki og langstökki en hún vann besta afrek frjálsíþróttamótsins skv. alþjóðlegri stigatöflu með því að stökkva 5,33 m í langstökkinu. Bryndís Embla og Helga Fjóla voru síðan í sveitinni Hebb sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi í flokki 15 ára.

15 ára
Vésteinn Loftsson vann langstökk, kringlukast og var í sigursveitinni Dímondi í 4×100 m boðhlaupi. Ívar Ylur Birkisson varð Unglingalandsmótsmeistari í 100 m hlaupi, 100 m grindahlaupi, 4×100 m boðhlaupi, hástökki, kúluvarpi og spjótkasti. Helgi Reynisson og Friðrik Smárason voru í sigursveitinni í 4×100 m boðhlaupi. Hugrún Birna Hjaltadóttir kom fyrst í mark í 800 m hlaupi og sigraði einnig í langstökki og var í sigursveitinni Hebb í 4×100 m boðhlaupi. Arna Hrönn Grétarsdóttir sigraði í hástökki og Sara Mist Sigurðardóttir sigraði í spjótkasti.

16-17 ára
Daníel Breki Elvarsson sigraði í langstökki, hástökki og spjótkasti og Ásta Dís Ingimarsdóttir sigraði í 800 m hlaupi.

Arna Hrönn Grétarsdóttir sigraði í hástökki en hér stekkur hún langstökk. Ljósmynd/UMFÍ

Körfuknattleikur
Andrea Líf Gylfadóttir, Hildur Eva Bragadóttir, Sara Rún Auðunsdóttir og Þórey Mjöll Guðmundsdóttir skipuðu liðið Disney sem vann titilinn í körfu í flokki 11-12 ára.

Grasblak
Tveir strákar af sambandssvæðinu, þeir Óðinn Freyr Hallsson og Sölvi Berg Auðunsson, kepptu saman í liði sem þeir nefndu Gosarnir. Þeir unnu grasblakið í 11-12 ára flokki.

Grashandbolti
Gosarnir unnu einnig grashandbolta í flokki 11-12 ára. Í liðinu voru Óðinn Freyr, Sölvi Berg, Gabríel Fannar Ólafsson og Þráinn Máni Gunnarsson. Disney-liðið vann einnig grashandboltann í flokki 11-12 ára stúlkna, liðið skipuðu þær Andrea Líf, Hildur Eva, Sara Rún og Þórey Mjöll.

Liðið Disney sigraði bæði í grashandbolta og körfubolta í flokki 11-12 ára stúlkna. Ljósmynd/Bragi Bjarnason

Knattspyrna
Liðið Kóngarnir sigraði í flokki 11-12 ára drengja. Liðið skipuðu þau Óðinn, Sölvi, Steindór, Hildur Eva, Sara Rún, Benedikt, Gabríel Fannar og Helgi.

Kóngarnir unnu knattspyrnumótið í flokki 11-12 ára. Ljósmynd/Bragi Bjarnason

Kökuskreytingar
Í parakeppni 11-12 ára sigruðu Stuðboltastelpurnar Bergþóra Hauksdóttir og Stella Natalía Ársælsdóttir. Andrea Sjöfn Óskarsdóttir sigraði einstaklingskeppni 11-12. Mögulega leynast fleiri sigurvegarar í hópi Sunnlendinga en bakarinn sem hélt utan um keppnina týndi blaðinu með úrslitunum og því er um að gera að senda ábendingar um verðlaunahafa á hsk@hsk.is.

Bergþóra og Stella Natalía með sigurkökuna í parakeppni 11-12 ára. Ljósmynd/Aðsend
Andrea Sjöfn sigraði í kökuskreytingum 11-12 ára. Ljósmynd/Aðsend

Keppendur HSK unnu auk þess til verðlauna í judó, upplestri, skák, stafsetningu og sundi. Þegar þetta er ritað vantar úrslit í nokkrum greinum inn á heimasíðu UMFÍ og því gætu fleiri sigurvegarar bæst við. Ábendingar eru vel þegnar á netfangið hsk@hsk.is.

Ljósmynd/UMFÍ
Ljósmynd/UMFÍ
Ljósmynd/UMFÍ
Ljósmynd/UMFÍ
Fyrri greinSkallamark við Skutulsfjörð dugði ekki til
Næsta greinNítján sækja um starf byggðaþróunarfulltrúa