Sunnlendingar í toppbaráttunni

Jóhann Rúnarsson varð annar í sérútbúna flokknum og Ívar Guðmundsson þriðji í götubílaflokknum í 1. umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri sem fram fór á Akureyri um helgina.

Jóhann var í hörkubaráttu um sigurinn þangað til hann villtist í einni af síðustu brautunum og var flaggaður út og tapaði töluvert af stigum. Þegar upp var staðið skildu 121 stig Jóhann frá sigurvegaranum, Ólafi Braga Jónssyni. Ólafur lauk keppni með 1280 stig en Jóhann 1159.

Róbert Agnarsson sýndi nokkuð stöðugan akstur á Heimasætunni þrátt fyrir að hafa velt einu sinni. Hann gat þó haldið áfram keppni og endaði í 4. sæti með 953 stig.

Benedikt Sigfússon átti í vandræðum með stýrið á Hlunknum og náði sér ekki á strik. Hlunkurinn lauk keppni í 6. sæti með 856 stig.

Í götubílaflokknum var keppnin jöfn og spennandi en Ívar Guðmundsson varð þriðji á Kölska með 1097 stig. Ívar var aðeins 43 stigum frá 1. sætinu en hann velti Kölska í 1. braut og missti í kjölfarið af 2. braut. Ívar hefði átt sigurinn vísan hefði hann náð í stig í þeirri braut.

Næsta keppni fer fram á Hellu þann 4. júní og má búast við að fleiri Sunnlendingar bætist í hóp keppenda þar.

Staðan í Íslandsmótinu að lokinni 1. umferð:
Sérútbúnir:
1. Ólafur Bragi Jónsson – 25 stig
2. Jóhann Rúnarsson – 18 stig
3. Leó Viðar Björnsson – 15 stig
4. Róbert Agnarsson – 12 stig
5. Daníel Ingimundarson – 10 stig
6. Benedikt Helgi Sigfússon – 8 stig
7. Garðar Sigurðsson – 6 stig

Götubílar:
1. Stefán Bjarnhéðinsson – 25 stig
2. Steingrímur Bjarnason – 18 stig
3. Ívar Guðmundsson – 15 stig
4. Ingólfur Guðvarðarson – 12 stig
5. Sævar Már Gunnarsson – 10 stig

Fyrri greinDrengurinn sem lést
Næsta greinAtvinnuátak á öskusvæðum