Sunnlendingar heiðraðir á frjálsíþróttaþingi

Engilbert og Einar ásamt Frey Ólafssyni, formanni FRÍ. Ljósmynd/FRÍ

Sex sunnlendingar voru heiðraðir af Frjálsíþróttasambandi Íslands á 62. þingi sambandsins sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði á dögunum.

Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins, var sæmdur gullmerki sambandsins og Einar Haraldsson frá Urriðafossi var sæmdur silfurmerki. Einar hefur lengi verið virkur liðsmaður frjálsíþróttahreyfingarinnar en hann var m.a. varaformaður FRÍ frá 1989 til 1992.

Þá var Selfyssingurinn Þráinn Hafsteinsson gerður að heiðursfélaga FRÍ. Þráinn átti á sínum tíma stóran þátt í uppgangi frjálsíþróttastarfs á HSK svæðinu og síðar leiddi hann uppbyggingarstarf hjá ÍR til stórafreka. Þráinn hefur starfað í fjölda nefnda og ráða hjá FRÍ og tekið þátt í landsliðsverkefnum í ýmsum hlutverkum. Hvar sem Þráinn hefur komið hefur geislandi áhugi hans og þekking á íþróttinni smitað út frá sér.

Þá var Örvar Ólafsson frjálsíþróttaþjálfari frá Stóru-Hildisey sæmdur silfurmerki sambandsins og bronsmerki FRÍ hlutu þeir Guðmundur Nikulásson frá Hvolsvelli og Einar Bárðarson frá Selfossi. Guðmundur hefur verið virkur í starfi hreyfingarinnar í áratugi og keppir enn í öldungaflokki en Einar hefur byggt upp ofurhlaupið Hengill Ultra svo eftir hefur verið tekið.

Þráinn Hafsteinsson. Ljósmynd/FRÍ
Fyrri greinTilkynning um eldinn barst ekki til lögreglu
Næsta grein57 í einangrun á Suðurlandi