Sunnlendingar heiðraðir á ársþingi FRÍ

Sunnlendingarnir sem heiðraðir voru á ársþingi FRÍ. (F.v.) Helgi, Ingvar, Þuríður, Guðbjörg, Sigríður Anna og Rúnar. Ljósmynd/Helga Kolbeinsdóttir

63. ársþing Frjálsíþróttasambands Íslands er haldið á Selfossi um helgina í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Eitt af fyrstu verkum þingsins í gær var að heiðra nokkra Sunnlendinga fyrir frábær störf í þágu frjálsra íþrótta.

Helgi S. Haraldsson var gerður að heiðursfélaga hjá Frjálsíþróttasambandinu en hann er þrautreyndur framámaður í frjálsíþróttahreyfingunni. Helgi hefur verið formaður frjálsíþróttadeildar Selfoss í rúma tvo áratugi en hann er einnig fyrrverandi formaður FRÍ og hefur sinnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir sambandið.

Sigríður Anna Guðjónsdóttir og Þuríður Ingvarsdóttir voru sæmdar gullmerki sambandsins, Guðbjörg Viðarsdóttir og Ingvar Garðarsson hlutu silfurmerki og Rúnar Hjálmarsson fékk eirmerki.

Þinginu verður framhaldið í dag og eru áætluð þingslit klukkan 14:00, en meðal annars munu þingfulltrúar skoða glæsilega aðstöðu Umf. Selfoss í Selfosshöllinni í dag.

Fyrri greinRangur eða réttur misskilningur?
Næsta greinLilja ráðin forstöðumaður