Sumardeild KKÍ í götubolta

KKÍ hefur ákveðið að efna til götuboltamóts eða “Streetball” í sumar. Stefnt er að því að leika í nokkrum riðlum um allt land.

Lið skrá sig til leiks og raðað verður í riðla eftir staðsetningu. Þannig er miðað við að lágmarki sex lið verða í riðli og hvert lið myndi leika um tíu leiki í sínum riðli.

Mótið fer þannig fram að KKÍ raðar upp riðlum með þeim liðum sem skrá sig til leiks og síðan munu liðin sjálf ákveða leikdaga og sjá til þess að þau klári að leika sína leiki fyrir mótslok. Mótstími verður ljós þegar búið er að taka við skráningum og raða í riðla en gera má ráð fyrir því að leikir þurfi að fara fram milli 21. júní fram í miðjan ágúst. Í hverju liði er fyrirliði sem sér um að ákveða í samráði við fyrirliða mótherjanna hvenær leikir fara fram.

Þá er stefnt að því að hafa veglega úrslitakeppni með þeim liðum sem komast áfram úr riðlunum sínum um miðjan ágúst með skemmtilegri umgjörð.

Helstu reglur eru þær að mótið er opið öllum sem vilja taka þátt og eru 18 ára eða eldri, óháð því hvort um ræðir áhugamenn um körfubolta eða leikmenn úr deildum KKÍ. Hámark sex leikmenn mega vera saman í liði og þátttökugjald á hvert lið er 3.000 kr.

Nánari upplýsingar, eins og leikreglur, framkvæmd móts og leikja og fleira er að finna á www.kki.is/sumardeildin.asp og hægt er að senda spurningar og þátttökutilkynningar inn á netfangið sumardeildin@kki.is

Frestur til skrá sig til leiks er til og með föstudagsins 18. júní. Úrslit og staða mun svo birtast á mótavef KKÍ.

Fyrri greinTvær sýningar í Bókasafninu í Hveragerði
Næsta greinÖflug skógrækt í Sandvíkurhreppi