„Suðurlandsins eina von“ lokaði leiknum

Arilíus Marteinsson. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Eftir dapra byrjun í 5. deildinni hafa Stokkseyringar unnið þrjá leiki í röð en í kvöld skelltu þeir Reyni Hellissandi, sem kom í heimsókn á Stokkseyrarvöll.

Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik eftir ágætar sóknir beggja liða en Stokkseyringar áttu leynivopn á bekknum. Beint af Hásteinsveginum komu 39 ár af gæðum, Suðurlandsins eina von, Arilíus Marteinsson. Hann kom inná í hálfleik og tók leikinn nánast í sínar hendur.

Á 51. mínútu geystist Arilíus upp vinstri kantinn, sendi klóka þversendingu alveg yfir á hægri þar sem Einar Ísak Friðbertsson smellti boltanum inn í markteig og beint í fæturna á Garðari Geir Haukssyni sem púttaði honum í netið.

Stokkseyringar voru ekki hættir. Á 65. mínútu sýndu þeir fjölbreytt tilþrif inni í vítateig Sandara áður en Arilíus skólaði menn til og þrumaði boltanum í bláhornið með frábæru skoti.

Leik nánast lokið og kóngurinn af Stokkseyri lét skipta sér útaf aftur á 85. mínútu, enda sigurinn í höfn þrátt fyrir að Stokkseyringar hafi klárað síðasta korterið manni færri. Á 74. mínútu fékk Sigurður Snær Sigurjónsson sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir meinta dýfu eftir augljóst brot markvarðar Reynis.

Nóg um það, Stokkseyringar fögnuðu vel með stuðningsmönnum sínum eftir leik en liðið er komið upp í 6. sæti A-riðilsins með 9 stig, jafnmörg stig og Hafnir sem eru í 3. sæti.

Fyrri greinVíti í súginn í tapleik á Nesinu
Næsta greinOpið hús í Þrándarholti