Suðri verður deild innan Umf. Selfoss

(F.v.) Helgi S. Haraldsson, formaður Umf. Selfoss, Valdimar Gunnarsson frá verkefninu Allir með og Ófeigur Ágúst Leifsson, formaður Íþróttafélagsins Suðra, bindast höndum saman í byrjun mars í fyrra. Ljósmynd/UMFÍ

Stjórn Ungmennafélags Selfoss hefur samþykkt aðildarumsókn Íþróttafélagsins Suðra. Suðri verður í kjölfarið deild fyrir íþróttastarf fatlaðra undir merkjum Ungmennafélags Selfoss.

Gert er ráð fyrir að starfið nú í byrjun árs en deildir ungmennafélagsins munu bjóða iðkendum með fötlun á æfingar. Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímarits Ungmennafélags Íslands.

Íþróttafélagið Suðri var stofnað árið 1986, er aðildarfélag Héraðssambandsins Skarphéðins og með beina aðild að Íþróttasambandi fatlaðra.

Ófeigur Ágúst Leifsson, formaður Suðra, segir marga kosti fylgja því að félagið færist undir ungmennafélagið. „Þetta mun hjálpa okkur gríðarlega. Við fáum með þessu aðgang að stoðþjónustu, þjálfurum, allri skrifstofuvinnu, Sportabler, framkvæmdastjóra og bókhaldi og fleiru,“ segir hann.

Ófeigur bætir við að í raun hafi samstarfssamningur á vegum hvatasjóðs verkefnisins Allir með, milli Suðra og Umf. Selfoss verið kveikjan að þessari þróun. Samningurinn fól í sér að hvatasjóðurinn styrkti íþróttastarf fyrir iðkendur með fötlun og skuldbatt félagið sig til að bjóða að lágmarki upp á eina æfingu í viku í eitt ár fyrir iðkendurna.

Börnin skila sér ekki í starfið
Ófeigur segir Suðra standa frammi fyrir svipuðum áskorunum og fleiri íþróttafélög fyrir iðkendur með fötlun, iðkendur einfaldlega skili sér ekki.

„Ég hef verið að þjálfa í þrettán ár, er að nálgast sextugt. Við fáum ekki íþróttamenntaðan þjálfara til að taka við keflinu. En svo eru iðkendurnir hjá okkur komnir yfir tvítugt. Nýliðun er engin því krakkar með fötlun skila sér ekki í íþróttastarfið,“ segir hann og bendir á að innan Árborgar séu 106 börn með fötlun. Af þeim skila sér aðeins 21 á æfingar hjá Suðra.

„Ef allt gengur eftir þá mun deildin fá aðgang að þjálfurum til að kynnast iðkendum með fötlun betur. Þá mun allt ganga betur og iðkendur með og án fötlunar æfa saman. Það mun skila árangri,“ segir hann.

Iðkendur með fötlun fái sömu tækifæri og aðrir
Helgi S. Haraldsson, formaður Ungmennafélags Selfoss, segir að þetta sé mikið framfaraskref fyrir íþróttaiðkendur með fötlun. Nú fá þau aðgengi að þjálfurum, aðstöðu og deildin hefur öruggt regluverk.

„En öðru fremur munu iðkendur fá sterkari tilfinningu fyrir því að þau tilheyri hópi, sama félagi og aðrir. Það gæti skilað sér í fjölgun ungra iðkenda með fötlun,“ segir Helgi og bætir við að fleiri félög hljóti að stefna í þessa átt. „Íþróttahreyfingin og félögin þurfa að vera opin fyrir því að læra og gefa sér tíma til að skapa öllum vettvang til að taka þátt í skipulögðu starfi,“ segir Helgi.

Fyrri greinTveir í röð hjá Hamri/Þór
Næsta greinFramkvæmda- og eignanefnd skipuð í Rangárþingi ytra