Suðrakeppendur fengu magnaðar móttökur

Heimsleikum Special Olympics í Berlín komnir heim á Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Keppnisfólk Íþróttafélagsins Suðra fékk magnaðar móttökur í miðbæ Selfoss í kvöld þegar hann kom heim af Heimsleikum Special Olympics sem haldnir voru í Berlín.

Mikill mannfjöldi tók á móti hópnum á Tryggvatorgi og fagnaðarlætin voru mikil, fánar á lofti og húrrahróp. Það var þreyttur en glaður hópur sem kom heim frá Berlín í dag eftir frábæra keppnisferð þar sem allir keppendur Suðra náðu frábærum árangri.

María Sigurjónsdóttir nældi sér í tvenn gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun í sínum þyngdarflokki í lyftingum, Katla Sif Ægisdóttir tók gullið í bringusundi, Birgir Örn Viðarsson tók silfrið í sínum riðli í boccia, Telma Þöll Þorbjörnsdóttir vann gullverðlaun í golfi og síðast en alls ekki síst skal nefna Sigurjón Ægi Ólafsson, sem vann hug og hjörtu allra sem á hann horfðu í lyftingum og lenti í 4.-5. sæti í sínum greinum. Myndband af einni af lyftu Ægis má sjá neðst í fréttinni. Þjálfarar hópsins voru Ófeigur Ágúst Leifsson í boccia og Örvar Arnarson í lyftingum.

Svo skemmtilega vildi til að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, var á Selfossi þegar hópurinn kom heim og tók hann á móti þeim ásamt Fjólu St. Kristinsdóttur bæjarstjóra og Braga Bjarnasyni formanni bæjarráðs. Hópurinn var leystur út með blómum og gjöfum og gleðin skein af hverju andliti.

Hópurinn fékk frábærar móttökur á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar Katla Sif hitti vinkonu sína, Önnu Sigurveigu Ólafsdóttur, en þær æfa saman sund á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Guðmundur ráðherra spjallar við Ófeig Leifsson á meðan Fjóla bæjarstjóri smellir kossi á Telmu Þöll. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Suðrahópurinn ásamt ráðherra, bæjarstjóra og formanni bæjarráðs. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Katla Sif með foreldrum sínum, Írisi Grétarsdóttur og Ægi Sigurðssyni. sunnlenska.is/Jóhanna SH

 

Fyrri greinGrátlegt tap í Suðurlandsslagnum
Næsta greinFyrsta tap Árborgar – Uppsveitir lutu í gras