Suðurlandsins eina von í Stokkseyri

Stokkseyringar hafa heldur betur fengið liðsstyrk fyrir átökin í 4. deild karla í knattspyrnu en Arilíus Marteinsson hefur gengið til liðs við félagið.

Arilíus er hokinn af reynslu, en hann hefur leikið yfir 300 leiki fyrir Selfoss og Ægi, hann dvaldi einnig skamma hríð hjá Stokkseyringum sumarið 2014.

„Það er stórkostlegt og fallegt að fá Alla Matt aftur heim. Eins og allir vita er hann klassaleikmaður sem mun gefa liðinu mikið,“ sagði Rúnar Birgisson, þjálfari Stokkseyrar, í samtali við sunnlenska.is.

Stokkseyringar gætu orðið skæðir í sumar en þeir hafa einnig fengið til liðs við sig reynsluboltana Jón Reyni Sveinsson og Hlyn Kárason.

„Það er kominn flottur kjarni hjá okkur. Við gætum komið öllum á óvart í sumar ef allt gengur upp. Ef ekki þá státum við að minnsta kosti af iðagrænum velli og bestu humarsúpu landsins. Það verður stemmning í fótboltanum á Stokkseyri í sumar,“ bætti Rúnar við.

Ingó Veðurguð og Arilíus voru lengi vel samherjar hjá Selfossi og hér að neðan má hlýða á ódauðlegt lag um Arilíus sem Ingó samdi til hans.

Fyrri greinStefnt að útboði hjúkrunarheimilis á Selfossi í byrjun árs 2018
Næsta greinHúsbíll fauk við Reynisfjall – Einn með þyrlu á sjúkrahús