Styrmir stökk hæst allra

Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, sigraði í hástökki karla á Vormóti HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossvelli í dag. Styrmir stökk 1,84 m

Þá sigraði Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, í sleggjukasti karla, kastaði 39,80 m.

Harpa Svansdóttir, Umf. Selfoss, varð önnur langstökki kvenna, stökk 5,05 metra. Harpa vann einnig silfur í 100 m hlaupi kvenna á 14,09 sek og liðsfélagi hennar, Andrea Vigdís Victorsdóttir, varð þriðja á 14,68 sek. Andrea Vigdís varð einnig þriðja í spjótkasti kvenna, kastaði 33,51 m.

Eyrún Halla Haraldsdóttir, Umf. Selfoss, varð önnur í kringlukasti kvenna með kast upp á 31,95 m og Thelma Björk Einarsdóttir, Umf. Selfoss, varð þriðja, kastaði 29,37 m.

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Samhygð, varð annar í 400 m hlaupi karla á 51,32 sek og þá varð Guðmundur Kristinn Jónsson þriðji í spjótkasti karla en hann kastaði 48,94 m.

Einnig var keppt í piltaflokki og þar sigraði Teitur Örn Einarsson, Umf. Selfoss, í kúluvarpi, kastaði 12,24 m.

Af öðrum árangri má nefna að Guðmundur Sverrisson, ÍR, setti vallarmet í spjótkasti er hann kastaði 78,29 m og sigraði. Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki varð annar á nýju Íslandasmeti pilta 18-19 ára með 72,45 m. Þá setti Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, Íslandsmet í 400 m hlaupi 14 ára á tímanum 57,70 sek. Í sleggjukasti kvenna kastaði Vigdís Jónsdóttir, FH, 53,17m og setti vallarmet á Selfossvelli.

Fyrri greinSunnlensku liðin töpuðu
Næsta greinGunnar valinn þjálfari ársins