Styrmir sterkur í sigri á Val

Styrmir Snær Þrastarson var besti maður Þórs í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Val í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, fyrir tómu húsi í Þorlákshöfn. Lokatölur urðu 98-96.

Þór skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum en eftir það tóku gestirnir völdin og þeir komust í 13-22 undir lok 1. leikhluta. Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og náðu að jafna 45-45 en staðan var 47-47 í hálfleik.

Það var annað uppi á teningnum í seinni hálfleiknum en Þórsarar voru skrefinu á undan allan tímann og náðu að verjast öllum áhlaupum Valsmanna. Valsmenn voru þó aldrei langt undan en Þór átti svör við öllum leikfléttum þeirra.

Callum Lawson var stigahæstur Þórsara með 31 stig og Styrmir Snær Þrastarson átti stórleik með 24 stig og 10 fráköst. Larry Thomas skoraði 14 stig, Ragnar Örn Bragason 11 og Adomas Drungilas var mjög drjúgur í sínum fyrsta leik eftir leikbann, með 9 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar.

Þórsarar eru í 2. sæti deildarinnar með 26 stig en Valur í því 4. með 20 stig. Þór mætir Hetti á útivelli næstkomandi mánudagskvöld.

Fyrri greinStór skimun á Flúðum á þriðjudag
Næsta greinÆgismenn og Hamarskonur úr leik í bikarnum