Styrmir Snær framlengir í Þorlákshöfn

Styrmir Snær Þrastarson og Jóhanna Margrét Hjartardóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, við undirritun samningsins. Ljósmynd/Þór Þorlákshöfn

Styrmir Snær Þrastarson, efnilegasti bakvörður úrvalsdeildar karla í körfubolta, skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Þórs.

Styrmir Snær hefur vakið mikla athygli á yfirstandandi tímabili en hann hefur verið í stóru hlutverki hjá meistaraflokki Þórs í vetur. Styrmir Snær kemur úr öflugu barna og unglingastarfi deildarinnar og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands. Á dögunum var hann síðan valinn í fyrsta skipti í A-landsliðshóp og lék sinn fyrsta A-landsleik í kjölfarið.

„Hann býr yfir mjög sterku hugarfari og leggur sig fram við æfingar sem hefur gert hann að einum fremsta körfuboltamanni landsins. Hann er vinnusamur, áræðinn og útsjónarsamur leikmaður. Einnig tekur Styrmir virkan þátt í þjálfun ungra leikmanna og er góð fyrirmynd fyrir unga iðkendur félagsins,“ segir í tilkynningu frá Þórsurum, sem eru hæstánægðir með að Styrmir Snær hafi ákveðið að framlengja samning sinn.

Fyrri greinGuðbjörg sæmd silfurmerki HSK
Næsta greinByggðaráð segir að nú sé nóg komið