Styrmir og Thomas leiddu stórsókn Þórsara

Larry Thomas og Styrmir Snær voru í stuði í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar voru í miklum ham í sókninni þegar þeir lögðu Hauka á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þar sem Larry Thomas og Styrmir Snær Þrastarson fóru á kostum.

Það var mikið skorað í fyrri hálfleik en staðan var 57-62 í leikhléi. Þórsarar gerðu nánast út um leikinn í 3. leikhluta með hröðum og beinskeyttum sóknarleik en staðan var orðin 81-96 í lok leikhlutans. Menn róuðust aðeins í síðasta fjórðungnum en lokatölur urðu 100-116.

Larry Thomas og Styrmir Snær skoruðu rúmlega 58% af stigum Þórsara í kvöld og voru í miklum ham. Thomas skoraði 36 stig og Styrmir Snær 32 stig. Callum Lawson kom næstur með 20 stig.

Þórsarar eru áfram í 2. sæti deildarinnar með 18 stig og elta Keflavík eins og skugginn en Keflvíkingar hafa 20 stig í toppsætinu. Haukar eru hins vegar á botninum með 4 stig.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 36/7 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 32/5 fráköst, Callum Lawson 20/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8, Halldór Garðar Hermannsson 7/6 stoðsendingar, Adomas Drungilas 7/7 fráköst, Ragnar Örn Bragason 4, Emil Karel Einarsson 2/4 fráköst.