Styrmir bætti eigið met

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór Þorlákshöfn bætti eigið Íslandsmet í flokki 15 ára í hástökki innanhúss þegar hann flaug yfir 1,93 metra á aðventumóti Ármanns um síðustu helgi.

Fyrra Íslandsmet Styrmis innanhúss var 1,91m frá því í febrúar á þessu ári. Þessi árangur Styrmis er að sjálfsöðgu HSK met í hans flokki, en þetta er einnig HSK met í flokki 16-17 ára.

Styrmir bætti sig einnig í 60 m hlaupi og hljóp á 7,77 sek.

Fleiri keppendur voru að gera góða hluti og setja HSK met. Kolbeinn Loftsson Selfossi bætti 32 ára gamalt met í langstökki 12 ára þegar hann stökk 4,96 metra. Haukur Snær Guðmundsson átti metið sem var 4,76 metrar.

Loks stórbætti Hákon Birkir Grétarsson Selfossi eigið HSK met í kúluvarpi með 3 kg kúlu. Hann kastaði 11,98 metra, en fyrra met hans frá því í nóvember á þessu ári var 10,75 metrar.

Fyrri greinSíminn með 4G í Hveragerði
Næsta greinBúið að opna Hellisheiði og Þrengsli