„Styrkur að spila ekki vel en vinna samt“

Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir torsóttan sigur á Víðismönnum, 4-3, í framlengdum leik.

Það var gott að klára þetta. Þeir komu sér aftur og aftur inn í leikinn og við kannski sjálfum okkur verstir í þeim atriðum,” sagði Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik. „Það er ákveðin styrkur að spila ekki vel en vinna samt. Við höfum verið að spila vel í síðustu leikjum en ekki fengið úrslit, þannig þetta er ákveðið batamerki.

Selfyssingar stjórnuðu leiknum algjörlega í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora nema eitt mark. Richard Sæþór Sigurðsson gerði það á 30. mínútu. Staðan 1-0 í hálfleik og strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks var Richard búinn að skora aftur.

Selfossliðið var hins vegar full værukært eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir. Víðismenn færðu sig upp á skaftið og á 61. mínútu minnkaði Alexandar Stojkovic muninn eftir mistök í vörn Selfoss. Á 78. mínútu jafnaði svo Björn Bergmann Vilhjálmsson með stórkostlegu marki þegar hann hamraði boltann í þverslána og inn af 30 metra færi.

Staðan var þó ekki 2-2 nema í 40 sekúndur því strax í næstu sókn sneri Arnór Gauti Ragnarsson laglega á varnarmann Víðis og skoraði. Allt stefndi í sigur Selfyssinga þar til þrjár mínútur voru eftir að Stjojkovic skoraði aftur og tryggði Víðismönnum framlengingu.

Framlengingin var galopin en Selfyssingum tókst að tryggja sér sigurinn með skallamarki Andy Pew eftir hornspyrnu á 104 mínútu.

Selfyssingar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin í hádeginu á mánudaginn. Með þeim í pottinum verða Pepsi-deildarliðin Fylkir, Þróttur R, FH, ÍBV, Valur og Breiðablik, ásamt Frömurum úr 1. deildinni.