
Hið árlega Minningarmót í golfi um Gunnar Jón Guðmundsson var haldið síðastliðinn sunnudag í 24. skipti og fór það fram á Gufudalsvelli í Hveragerði.
Spiluð var níu holu Texas Scramble liðakeppni við frábærar aðstæður á flottum velli. Mjög góð þátttaka var í mótinu og komust færri að en vildu. Alls tóku 44 kylfingar þátt og skemmtu sér vel.
Mikil spenna var um efstu sætin en efstu þrjú liðin spiluðu öll á sama nettó skori eða 31 höggi. Sigurvegarar mótsins í ár voru félagarnir Hinrik Stefánsson og Guðmundur B. Theódórsson en þeir spiluðu best á síðustu þremur holum vallarins og enduðu þar með sem verðskuldaðir sigurvegarar. Í 2. sæti urðu Gunnar Marel Einarsson og Hilmir Guðlaugsson og í 3. sæti þeir Elís Rúnar Elísson og Alexander Egill Guðmundsson.

Í mótslok var keppendum boðið upp á veglegt steikarhlaðborð frá Grillvagninum. Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin, nándarverðlaun á par 3 brautum vallarins ásamt því að dregnir voru út fjölmargir vinningar úr skorkortum.
Minningarmótið er haldið árlega og rennur allur ágóði af mótinu í Minningarsjóð Gunnars Jóns, sem hefur það að markmiði að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf í Sveitarfélaginu Ölfus ásamt öðru forvarnarstarfi í leik- og grunnskólum á svæðinu.
Eftir mótið var barna- og unglingastarfi Knattspyrnufélagsins Ægis veittur styrkur úr Minningarsjóði Gunnars Jóns upp á 1 milljón króna. Fjölskylda Gunnars Jóns vonar að styrkurinn muni koma að góðum notum við áframhaldandi uppbyggingu á barna- og unglingastarfi Ægis.
Minningarsjóður Gunnars Jóns Guðmundssonar vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Golfklúbbs Hveragerðis, allra styrktaraðila mótsins sem og allra þátttakenda fyrir stuðninginn við mótið.
