Styrktarsamningar við íþróttaakademíur FSu framlengdir

Fjölbrautaskóli Suðurlands, Sveitarfélagið Árborg og íþróttaakademíur FSu skrifuðu í morgun undir áframhaldandi styrktarsamning fyrir næstu skólaár.

Við skólann eru starfræktar fjórar íþróttaakademíur en Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur verið í fararbroddi við að byggja upp akademíurnar þar sem námi og íþróttaþjálfun er tvinnað saman. Nú eru starfræktar fjórar akademíur við skólann; knattspyrnu-, handbolta-, körfubolta- og fimleikaakademíur.

Sveitarfélagið leggur um 4,5 milljónir króna í hverja akademíu á samningstímanum en það er gert í nafni þess forvarnarstarfs sem fram fer þar.

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, skrifuðu undir samningana ásamt fulltrúum akademíanna, þeim Víði Óskarssyni, Sebastian Alexanderssyni, Kristjönu Hallgrímsdóttur og Sævari Sigurðssyni. Undirritunin var hluti af skólasetningarathöfn FSu í morgun en viðstaddir voru hátt í eittþúsund nemendur ásamt starfsfólki skólans og bæjarráði Árborgar.